154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[20:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir sína seinni ræðu og fyrir að fjalla um þá athugasemd sem ég kom með hér í minni ræðu varðandi þessa tengingu við fjárframlög frá Norðurlöndunum við það hvernig við ætlum að haga okkar fjárframlögum hér á Íslandi, þ.e. hlutfallslega tengingu við fjárframlög frá Norðurlöndunum. Ég skil ágætlega þau rök sem ráðherra ber fram, það er ekkert endilega betra að leggja til einhverja krónutölu, ég er alveg sammála því, en ég velti fyrir mér hvort það að segja eins og stendur í 2. mgr. tillögunnar, með leyfi forseta: „… og sé hlutfallslega sambærileg að umfangi við það sem önnur Norðurlönd leggja af mörkum“ — hvort það væri ekki réttara að tala um að hún sé að lágmarki hlutfallslega sambærileg við það sem önnur Norðurlönd leggja af mörkum til þess að gefa okkur svigrúm til að gera betur ef þannig liggur á okkur. Mér finnst það einhvern veginn setja okkur skorður að segja: Við ætlum að vera hér í þessari meðaltalslínu Norðurlandanna og við ætlum okkur bara að halda okkur þar burt séð frá því hvort við sjáum tilefni til þess að hækka framlögin eða ekki. Ég átta mig á því að þetta er náttúrlega ekki svona skýrt orðað hérna en mér finnst þetta einhvern veginn gefa það til kynna og finnst það óþarfi. Það færi, held ég, betur á því að hafa þetta lágmark frekar en að orða þetta svona nánast eins og einhvers konar reglu, einhvers konar reiknireglu. Mér finnst ágætt að hafa þetta sem lágmarksviðmið og það sýnir það að við ætlum að gera þetta vel og vera þjóð meðal þjóða í þessu, sér í lagi meðal okkar nágrannaþjóða. Ég velti fyrir mér hvort við myndum ekki frekar vilja hafa þetta sem gólf heldur en að hafa þetta sem einhverja svona meginreglu.